Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 18/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 18/2021

Fimmtudaginn 10. júní 2021

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, dags. 15. janúar 2021, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar B frá 22. desember 2020 vegna umgengni hennar við dóttur sína, D.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan D er á X aldursári og lýtur forsjá kæranda. Málefni stúlkunnar hafa verið til vinnslu á grundvelli barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) með hléum frá árinu 2016. Þegar bókað var um umgengni móður við stúlkuna í tímabundnu fóstri höfðu alls 15 tilkynningar borist í málinu, meðal annars varðandi fíkniefnaneyslu kæranda og vanrækslu gagnvart stúlkunni. Stúlkan hefur verið vistuð utan heimilis samanlagt í um tvö ár. Fyrst frá september 2017 til loka maí 2018 hjá föðurbróður og síðan frá desember 2019 á sama fósturheimili þar til kærandi sótti stúlkuna á leikskóla 27. janúar 2021, án samráðs við fósturforeldra og barnaverndaryfirvöld. Þann 6. október 2020 gerði barnaverndarnefndin þær kröfur fyrir dómi að kærandi yrði svipt forsjá stúlkunnar á grundvelli a- og d-liða 29. gr. bvl. Er nú forsjársviptingarmál rekið fyrir dómstólum.

Á fundi Barnaverndarnefndar B þann 15. desember 2020 var fjallað um umgengni í tímabundnu fóstri í kjölfar þess að borgarlögmanni var falið að gera þá kröfu fyrir dómi að kærandi yrði svipt forsjá stúlkunnar. Fyrir fundinn lá fyrir greinargerð starfsmanna Barnaverndar B, dags. 7. desember 2020, með tillögu um að umgengni stúlkunnar við foreldra sína á meðan forsjársviptingarmál væri rekið fyrir dómstólum, yrði mánaðarlega í tvær klukkustundir í senn, undir eftirliti í húsnæði Barnaverndar B. Ekki náðist samkomulag um umgengni kæranda við stúlkuna og var málið því tekið til úrskurðar.

Barnaverndarnefnd B kvað upp úrskurð varðandi umgengni stúlkunnar við kæranda þann 22. desember 2020. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem bent er á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

Barnaverndarnefnd B ákveður að A, hafi umgengni við D, einu sinni í mánuði í tvær klukkustundir í senn. Umgengni fari fram undir eftirliti og í húsnæði á vegum Barnaverndar B eða í húsnæði sem aðilar koma sér saman um.“

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 15. janúar 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 26. janúar 2021, var óskað eftir greinargerð Barnaverndarnefndar B ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndarnefndar B barst nefndinni 16. febrúar 2021 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. nóvember 2021, var hún send lögmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá lögmanni kæranda með bréfi, dags. 26. febrúar 2021, og voru þær sendar Barnaverndarnefnd B með bréfi, dags. 1. mars 2021. Athugasemdir bárust frá Barnaverndarnefnd B með bréfi, dags. 25. mars 2021, og voru þær sendar lögmanni kæranda til kynningar og veittur frestur til að gera athugasemdir með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 26. mars 2021. Frekari athugasemdir bárust ekki.

Barnaverndarnefndin úrskurðaði þann 10. febrúar 2021 um að stúlkan skyldi vistuð á heimili á vegum nefndarinnar í tvo mánuði, sbr. b-lið 1. mgr. 27. gr. bvl. Þann 5. mars 2021 staðfesti Héraðsdómur B úrskurð barnaverndarnefndarinnar um vistun stúlkunnar utan heimilis. Úrskurði Héraðsdóms B var skotið til Landsréttar sem staðfesti þann 19. mars 2021 úrskurð barnaverndarnefndarinnar um vistun stúlkunnar. Hæstiréttur hafnaði beiðni um málskot til réttarins með ákvörðun 20. apríl 2021.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess aðallega að úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 22. desember 2020 verði ómerktur en til vara að hann verði felldur úr gildi, enda byggi hann á ólögmætum sjónarmiðum, röngum fullyrðingum og gangi í berhögg við ýmis ákvæði barnalaga, barnaverndarlaga, Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, 71. gr. stjórnarskrárinnar, 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu sem og ákvæðum stjórnsýslulaga, nánar tiltekið meðalhófsreglu, rannsóknarreglu og andmælareglu. Auk alls þessa sé úrskurðurinn kveðinn upp í valdþurrð þar sem kærandi sé nú flutt […] í umdæmi E og Barnaverndarnefnd B sé því ekki til þess bær að úrskurða um umgengni eða hafa önnur afskipti af málinu.

Verði ekki fallist á málsástæður um valdþurrð, eða úrskurðurinn fellur úr gildi af öðrum ástæðum, sé þess krafist að barnaverndarnefnd verði rudd og ný nefnd sett til að úrskurða í málinu. Ljóst sé að vinnubrögð nefndarinnar í máli þessu leiði til þess að nefndin sé öll vanhæf til að úrskurða í málinu, enda hafi nefndin gerst sek um ólögmæta meingerð gagnvart kæranda.

Í kæru kemur fram að kærandi eigi X börn. X eldri börnin séu samfeðra og séu búsett hjá föður sínum í F en kærandi fari ein með forsjá yngstu dóttur sinnar, D. Kærandi hafi glímt við fíknivanda frá unga aldri en tekist á við hann með góðum árangri með ýmis konar stuðningi. Hún hafi átt löng, góð tímabil en fallið á bindindinu nokkrum sinnum þegar hún hafi búið við óvenjulegt álag. Kærandi hafi farið í meðferð í janúar 2015 og náð góðu jafnvægi, eignast D í X og það hafi gengið vel framan af.

Tæpu ári eftir fæðingu barnsins hafi farið að berast tilkynningar til barnaverndar. Kærandi hafi þá verið komin í ofbeldissamband við föður stúlkunnar og hafi flestar tilkynninganna varðað föður. Kærandi hafi samþykkt að stúlkan yrði vistuð utan heimilis að sinni og hafi verið í góðri samvinnu við barnavernd en markmiðið hafi verið að tryggja að faðir stúlkunnar færi af heimilinu og kæmi ekki þangað aftur. Kærandi hafi samþykkt vistun barnsins utan heimilis í fjóra mánuði en úrskurður um sex mánaða vistun utan heimilis hafi verið kveðinn upp 2. október 2017.

Það hafi tekið á kæranda að brjótast út úr ofbeldissambandi. Hún hafi misst tök á fíkn sinni en hafi brugðist við með því að fara strax inn á G í október 2017 og í kjölfarið hafi verið gerð dómsátt um áframhaldandi vistun stúlkunnar utan heimilis í desember 2017. Gögn málsins sýni að frá desember 2017 hafi kærandi verið edrú og nýtt sér úrræði barnaverndar og stuðning. Kærandi hafi tekið við umsjá stúlkunnar í maí 2018 og hafi þá máli stúlkunnar verið lokað hjá barnavernd.

Eftir að stúlkan hafi komið heim hafi gengið vel um tíma og kærandi verið edrú. Hins vegar hafi hún verið einstæð með X börn og mikið álag á henni. Hún hafi leitað sér hjálpar til að fyrirbyggja fall og farið inn á G í janúar 2019. Á öllu árinu 2019 kveði við gríðarlega jákvæðan tón hjá barnavernd þar sem ítrekað sé ritað meðal annars að „móðir hefur verið að standa sig með prýði og taka verður orð hennar hvað varðar að hún fór á G til að forðast neystu, trúanlega“ og „móðir hefur verið í góðri samvinnu við barnavernd og unnið að bættri stöðu sinni [...] og sinnti móðir sínum hluta þeirra meðferðaráætlana sem gerðar hafa verið“, „Ljóst er að mikill árangur hafi nú náðst í málinu..“, en þetta hafi verið sumarið 2019. Þetta sé í samræmi við eldri ummæli, til dæmis skýrslu meðferðarfundar 9. desember 2015 þar sem fram komi að kærandi hafi uppfyllt meðferðaráætlun, sé til góðrar samvinnu við barnavernd og heimilið snyrtilegt.

Í desember 2019 hafi afskipti barnaverndar hafist á ný í kjölfar nafnlausrar tilkynningar. Nýr starfsmaður hafi tekið við málinu og athygli veki að afstaða barnaverndarnefndar sem hafi áður einkennst af jákvæðni í garð móður og skilningi á því hlutverki barnaverndarnefnda að veita fjölskyldum stuðning virðist kúvendast þegar nýr starfsmaður hafi tekið við. Stakkaskipti þessi megi glögglega greina í bókun meðferðarfundar, dags. 9. desember 2019, og fylgjandi bókunum. Sérstök ástæða sé til þess að skoða þessa bókun og bera saman við það sem á undan hafi verið og svo það sem á eftir komi. Eina breytingin sé að nýr ráðgjafi taki við málinu.

Í áðurnefndum gögnum barnaverndar frá sumrinu 2019 sé öll áhersla á samstarfsvilja og góða frammistöðu kæranda. Í bókuninni frá 9. desember 2019 séu grundsemdir um eitt fall blásnar upp þannig að kærandi sé allt í einu orðin algjörlega ófær um að sjá um stúlkuna. Þetta sé skilningsleysi af hálfu ráðgjafa sem hafi atvinnu af því að aðstoða fjölskyldur með ýmis konar vanda, ekki síst vanda sem tengist vímugjöfum. Vitaskuld verði foreldrar sem glími við fíknivanda að leita sér hjálpar þegar ástæða sé til en mikilvægt sé að hafa í huga að fíknivandi geri fólk ekki sjálfkrafa að óhæfum foreldrum. Það séu viðbrögð við fallhættu og föllum sem ráði úrslitum um líkurnar á því að börn verði fyrir skakkaföllum vegna fíknar foreldra. Ekki verði séð af gögnum málsins að meint fall kæranda hafi verið á því stigi að það hafi komið niður á stúlkunni, til að mynda verði ekki annað ráðið af umsögnum leikskóla en að umönnun stúlkunnar hafi verið til fyrirmyndar. Kærandi hafi tekið fulla ábyrgð á veikindum sínum, strax orðið aftur edrú og strax verið í fullri samvinnu við barnavernd, meðal annars með því að samþykkja tímabundna vistun utan heimilis og meðferðaráætlun.

Ætla mætti að þessi viðbrögð kæranda yrðu skoðuð sem merki um einbeittan vilja til að taka á vandanum og ætti hlutverk barnaverndaryfirvalda að vera að veita stuðning, enda augljóslega hagsmunir barnsins að foreldri sé í góðu jafnvægi. Í bókun frá 3. mars 2020 sé rangt farið með mál þar sem fullyrt sé að kærandi hafi ekki staðið við sinn hluta meðferðaráætlunar. Orð hennar virðast hafa verið rangtúlkuð á hinn versta veg, auk þess sem fullyrðingar um meint ósamvinnuþýði stangist beinlínis á við gögn málsins. Rangfærslur þessar séu síðan ítrekað endurteknar og fleiri rangfærslum við þær bætt og þær svo teknar upp í greinargerð starfsmanna barnaverndarnefndar, úrskurði um umgengni og stefnu þar sem krafist sé forsjársviptingar. Þessi yfirgengilega neikvæðni ráðgjafans í garð kæranda haldi áfram, þrátt fyrir til dæmis að gögn sem henni berist sýni að kærandi hafi staðið sig vel og verið edrú.

Neikvæð afstaða ráðgjafans hafi jafnframt komið fram í viðmóti hennar við kæranda og komi fram í gögnum málsins að kærandi hafi óskað eftir nýjum ráðgjafa í febrúar 2020. Þá ósk hafi hún ítrekað í mars. Þessi ósk hafi verið að engu höfð, þrátt fyrir að ljóst væri að kærandi treysti ekki þessum ráðgjafa og að greinilegt ósamræmi í ummælum ráðgjafans við fyrri gögn gæfu skýra vísbendingu um að áhyggjur kæranda af fordómafullri afstöðu ráðgjafans væri ekki að ástæðulausu.

Í hinum kærða úrskurði sé áhersla lögð á að kærandi hafi ekki viljað undirgangast inniliggjandi meðferð. Ekki fylgi sögunni hvaða afleiðingar þessi meinta yfirlýsing eigi að hafa fyrir kæranda. Í fyrsta lagi hafi engin krafa verið um það af hálfu barnaverndar að kærandi færi í inniliggjandi meðferð frá desember 2019, enda hefði meðferðarþörf kæranda enn ekki verið metin af sérfræðingum, líkt og til hafði staðið. Í tölvupósti frá ráðgjafa barnaverndar sé höfð uppi fyrirspurn til kæranda um hvaða meðferðarúrræði hún hygðist nýta, það er inniliggjandi meðferð eða göngudeilarúrræði. Af samskiptum þeirra í kjölfarið megi sjá að þær hafi sammælst um það sem áður hefði verið ákveðið, það er að kærandi færi í viðtal hjá I til að meta meðferðarþörf. Þá skuli bent á að kærandi hafi á þessum tíma verið edrú og hafði verið það um langa gríð. Þá hafði hún einnig lokið meðferð í K og staðið sig þar mjög vel.

Ráðgjafinn hafi sent beiðni til I en eftir fyrirspurn kæranda í júlí 2020 og tilkynningu um að hún hefði enga boðun fengið í slíkt viðtal, hafi komið í ljós að beiðnin hefði fyrirfarist hjá I. Kærandi hafi enn ekki fengið boðun í umrætt viðtal.

Í gögnum málsins komi ítrekað fram að kærandi hafi verið tilbúin til að skoða bæði V og göngudeild I til að taka á vanda sínum. Hafa verði í huga að kærandi sé haldin sjúkdómi sem einkennist af föllum. Eitt fall hafi ekki sjálfkrafa í för með sér að kærandi teljist vanhæf eða að inniliggjandi meðferð sé eina tiltæka úrræðið. Starfsfólk barnaverndar hafi ekki yfir að búa sérfræðiþekkingu til þess að meta meðferðarþörf kæranda. Bent sé á að í forsjárhæfnismati, sem hafi legið fyrir þann 14. september 2020, hafi verið mælt með því að kærandi sækti göngudeildarmeðferð á V og að umgengni yrði aukin smátt og smátt með áframhaldandi edrúmennsku. Það mat sérfræðingsins hafi byggst í ofanálag á rangfærslum barnaverndar um meinta „óvissu um edrúmennsku móður“. Barnaverndarnefnd hafi hins vegar aldrei gefið kæranda færi á að fara eftir ráðleggingum matsmanns í þeim efnum heldur tekið þá ákvörðun strax í kjölfar matsins að fara í forsjársviptingarmál.

Þrátt fyrir ráðleggingar sérfræðings í forsjárhæfnismati kveði úrskurður barnaverndarnefndar á um afar takmarkaða umgengni og taki ákvörðun um að forsjársvipta. Engar trúverðugar skýringar sé að finna á því hvernig barnaverndarnefnd hafi komist að þessari niðurstöðu, hvað þá hvernig það samræmist meðalhófi að leyfa fimm ára stúlku aðeins tveggja klukkustunda samskipti við móður sína mánaðarlega og það undir eftirliti, á sama tíma og stúlkan skýri einlægt og skýrt frá því að vilja meiri umgengni og að kærandi sé edrú og gögn málsins staðfesti að hún sé vel forsjárhæf, haldi hún bindindi. Í úrskurðinum sé ekki þverfótað fyrir röngum fullyrðingum sem standist enga skoðun. Þetta sé grafalvarlegt. Ljóst sé að sá öryggisventill, sem barnaverndarnefndin eigi að vera gagnvart þeirri hættu að einstakir starfsmenn barnaverndar fari offari eða séu með valdníðslu, sé brotinn.

Í kæru bendir lögmaður kæranda á helstu rangfærslur í úrskurði barnaverndarnefndar og greinargerð starfsmanna barnaverndar.

Fyrst er bent á að í úrskurði barnaverndarnefndar sé fullyrt að á tímabili meðferðar málsins hjá barnavernd hafi starfsmönnum þótt erfitt að eiga samvinnu og samskipti við kæranda. Það sé alrangt að það hafi erfitt að eiga samvinnu við kæranda. Ekki sé einu sinni gerð tilraun til þess að rökstyðja þetta heldur sé því slengt fram án rökstuðnings og án þess að vísa í gögn. Gögnin sýni stanslaus samskipti kæranda og lögmanns hennar við barnavernd á tímabilinu, hvernig kærandi hafi ítrekað samþykkt dvöl barna sinna utan heimilis, þrátt fyrir að engin skilyrði fyrir vistun væru fyrir hendi. Hvernig hún hafi ítrekað mætt í vímuefnaprufur og viðtöl til barnaverndar.

Þá sé fullyrt að illa hafi gengið að koma á óboðuðu eftirliti á heimili kæranda. Í dagálsnótum eftirlitsaðila komi fram að í fjölmörg skipti hafi verið farið á heimili kæranda og hún ekki verið heima og í einhver skipti hafi kærandi ekki svarað síma þegar hringt hafi verið í hana. Þessu mótmæli kærandi. Í dagálum megi sjá hvernig kærandi dvaldi mikið fyrir vestan hjá föður sínum með fullri vitund barnaverndar. Hún hafi verið atvinnulaus og ekki viljað vera í H, auk þess sem hún hafi viljað fá frið frá áreitni barnsföður. Hún hafi samt sem áður verið eins mikið og hún gat í H í þeim tilgangi að reka barnaverndarmálin í samvinnu þar. Kærandi hafi ávallt látið vita þegar hún hafi farið vestur og boðist til að fara í vímuefnaprufur fyrir vestan og taka á móti eftirliti barnaverndar þar. Ekki sé að finna í gögnum sem barnaverndarnefnd hafi lagt fram neitt sem styðji fullyrðingar um að kærandi sé ósamvinnuþýð. Aftur á móti liggi fyrir sannanir um verulega samstarfstregðu af hálfu barnaverndar. Í því samhengi er bent á að í desember 2020 hafi kæranda verið synjað um umgengni við dóttur sína yfir hátíðarnar og um milligöngu barnaverndar til að koma jólagjöf til stúlkunnar. Það sé vandséð hvernig það samræmist meginreglunni um að hafa hagsmuni barnsins að leiðarljósi.

Jafnframt sé fullyrt að kærandi sé mjög afneitandi um vímuefnavanda sinn og hafi verið það um langt skeið. Lögmaður kæranda bendir á að gögnin sýni glögglega að kærandi hafi linnulaust verið að vinna í fíknisjúkdómi sínum, farið í meðferðir, rætt um sjúkdóminn og beinlínis tilkynnt hann til starfsmanna barnaverndar og lýst sig reiðubúna til þess að fara í göngudeildarúrræði á V og viðtöl hjá I. Hvergi komi fram í gögnum málsins að kærandi sé í afneitun.

Einnig sé fullyrt í greinargerð starfsmanna að umgengni kæranda við stúlkuna hafi verið mjög óregluleg og hafi kærandi ekki alltaf sinnt umgengni eða hún verið lögð niður. Þá séu einnig villandi ummæli í úrskurði um að „umgengni átti að fara fram 15. febrúar 2020 en móðir vildi ekki undirgangast vímuefnapróf og gat umgengni ekki farið fram“. Með þessu sé gefið til kynna að kærandi hafi verið áhugalaus um að sinna umgengni við stúlkuna og vanrækt umgengnisskyldu sína eftir eigin hentugleika. Hið rétta í þessu máli sé að starfsmenn barnaverndar hafi ítrekað brotið skyldur sínar til að gera samning við kæranda um reglulega umgengni. Eins og gögnin beri með sér hafi starfsmenn vanrækt að gera slíkan samning alveg frá upphafi. Hvað varði umgengni í febrúar þá hafi hún verið lögð til samdægurs eða með eins dags fyrirvara. Kærandi hafi verið nýkomin til H að I og verið í vinnu og ekki komist með svo stuttum fyrirvara. Því hafi umgengni verið ákveðin nokkrum dögum síðar og kærandi tekið vímuefnapróf sem hafi verið hreint. Því sé hafnað með öllu að kærandi hafi ekki viljað taka vímuefnapróf líkt og ranglega sé fullyrt í úrskurði barnaverndarnefndar. Vísar lögmaður kæranda í dagála er varða umrætt tímabil máli kæranda til stuðnings.

Að lokum bendir lögmaður kæranda á rangfærslur í úrskurði um samband systkinanna. Eins og fram hafi komið eigi stúlkan, sem um ræði, X eldri hálfsystkini sem hún hafi áður búið með. Þau búi nú hjá föður sínum í F. Samkvæmt meginreglum barnaréttar skuli stuðla að samgangi systkina nema það sé hagsmunum þeirra beinlínis andstætt, sbr. 2. mgr. 33. gr. bvl., 71. gr. stjórnarskrárinnar, auk 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu og meginreglna barnaréttar. Þrátt fyrir þá meginreglu að splundra ekki systkinahópi hafi starfsmenn barnaverndar ekki gert minnstu tilraun til þess þegar tekin hafi verið ákvörðun um vistun stúlknanna utan heimilis að láta vista stúlkurnar saman eða í nágrenni hvor við aðra. Systkinin dvelji hvort í sínum landshlutanum. Afleiðingin sé sú að samband systkinanna hafi rofnað algerlega. Þrátt fyrir þá sorglegu staðreynd fullyrði barnaverndarnefnd í úrskurði sínum að systkinin hafi viðhaldið góðu sambandi og hist, þrátt fyrir að búa ekki á sama stað. Þetta séu ósannindi. Hið rétta sé að systkinin séu börn sem eigi enga möguleika á því að halda sambandi án aðkomu fullorðinna. Það sé á ábyrgð barnaverndaryfirvalda að sjá til þess að þau umgangist en þeirri skyldu hafi ekki verið sinnt. Engin skipulögð umgengni hafi verið á milli systkinanna á því tímabili sem stúlkurnar hafa verið vistaðar utan heimilis. Þá hafi stúlkan eingöngu hitt eldri systkinin tvisvar frá því að vistun hafi hafist þann 19. desember 2019 og í annað skiptið hafi þau ekkert náð að eiga tíma saman þar sem margir aðrir hafi verið viðstaddir.

Eldri systkinin hafi ítrekað reynt að hringja í stúlkuna en þeim ekki svarað eða jafnvel á þau skellt. Faðir eldri systkinanna hafi ítrekað kvartað undan þessu við barnavernd. Þá hafi hann bent á að fósturmóðir stúlkunnar virðist draga úr fremur en að hvetja til samskipta á milli systkinanna. Eldri systkinin kvarti jafnframt yfir því að þegar þau hafi reynt að eiga myndsímtöl við stúlkuna þá standi fósturmóðir yfir henni sem skiljanlega hafi þvingandi áhrif á þau öll.

Samkvæmt verklagsreglum Barnaverndarstofu skuli barnaverndarnefnd finna systkinum vistun eða fóstur saman ef aðstæður leyfa, en ella styrkja sérstaklega tengsl þeirra og samvistir. Það teljist til „rauðra ljósa“ ef „systkini eru ekki vistuð eða fóstruð saman eða ekki er gert ráð fyrir umgengni þeirra dvelji þau á mismunandi stöðum“. Hið rétta sé að fyrir tilstuðlan barnaverndarnefndar hafi systkinum þessum verið stíað algerlega í sundur. Engin samskipti séu á milli þeirra og fái þau ekkert að hittast.

Lögmaður kæranda bendir síðan á ýmsar aðrar rangfærslur í úrskurði barnaverndarnefndar og bendir á að fleiri rangfærslur sé að finna í greinargerð barnaverndar og hinum kærða úrskurði. Vísað er í því sambandi til greinargerðar kæranda til Héraðsdóms Í í máli sem þar sé rekið um kröfu nefndarinnar um forsjársviptingu.

Kærandi byggi á því að við meðferð málsins hafi verið byggt á ólögmætum sjónarmiðum. Að mat á því hvað barninu sé fyrir bestu vanti algerlega eða sé ófullnægjandi með öllu og að úrskurðurinn sé kveðinn upp í valdþurrð. Þá sé á því byggt að hvorki sé hægt að taka mark á því sem fram komi í greinargerðum starfsmanna barnaverndar né úrskurðum barnaverndarnefndar vegna allra rangfærslnanna. Jafnframt sé á því byggt að jafnvel þó að framangreindar yfirlýsingar sem fram komi í úrskurði og greinargerð starfsmanna væru réttar, gætu þær ekki leitt til þeirrar niðurstöðu sem nefndin hafi komist að í úrskurði sínum.

Gögn málsins sýni fram á að kærandi sé haldin fíknisjúkdómi en hafi verið edrú frá því í desember 2019 fyrir utan eina litla sprungu í júlí 2020 en hún hafi strax orðið aftur edrú. Samkvæmt forsjárhæfnismötum sem liggi fyrir sé kærandi vel forsjárhæf og góð móðir, haldi hún bindindi. Kærandi hafi verið í mjög góðri samvinnu við barnavernd og í reynd samþykkt allt sem barnavernd hafi lagt fram. Kærandi hafi skilað yfir 20 hreinum vímuefnaprufum á árinu og verið í stanslausum samskiptum við starfsmenn barnaverndar. Umgengni hafi alltaf gengið vel og stúlkan tekið kæranda fagnandi. Vilji stúlkunnar til að búa hjá kæranda og umgangast hana sé mjög skýr en nefndin hunsi þann vilja. Kærandi sé búsett fyrir I og hafi verið með annan fótinn þar allt árið, með fullri vitund barnaverndar. Eina ástæðan fyrir því að hún hafi dvalist í H sé til að sinna þessum barnaverndarmálum og vera í góðri samvinnu við barnavernd og nú undanfarið til að sækja göngudeildarmeðferð á V. Kærandi hafi skráð sig sjálf í göngudeildarúrræði á V til samræmis við ráðleggingar matsmanns í forsjárhæfnismatinu frá 14. september 2021 og það gangi mjög vel.

Réttur barns til að njóta umgengni við foreldra

Í máli því sem hér um ræði virðist Barnaverndarnefnd B álíta að það sé barninu fyrir bestu að tengsl þess við kæranda og systkini sín verði sem allra minnst. Þessi afstaða brjóti í bága við ákvæði laga og mannréttindasáttmála sem Ísland er aðili að. Þannig kveði 3. mgr. 9. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna á um „rétt barns sem skilið hefur verið frá foreldri eða foreldrum sínum til að halda persónulegum tengslum og beinu sambandi við þau bæði með reglubundnum hætti, enda sé það ekki andstætt hagsmunum þess.“ Samkvæmt 28. gr. barnalaga eigi barn rétt á forsjá foreldra sinna. Samkvæmt 2. mgr. 12. gr. bvl. sé barnaverndarnefnd skylt að aðstoða foreldra við að gegna forsjárskyldum sínum. Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. bvl. eigi barn í fóstri „rétt á umgengni við foreldra eða aðra sem eru því nákomnir enda samrýmist það hagsmunum þess“.

Meginreglan í málum barna í tímabundnu fóstri sé sú að stjórnvöldum beri að stuðla að góðum tengslum þess við kynforeldra og að stefnt skuli að því að barnið fari aftur í þeirra umsjá. Andi laganna, lögskýringargögn og dómaframkvæmd beri þess skýr merki að verulega skert umgengni barns og foreldris eigi aðeins rétt á sér ef það sé andstætt hagsmunum barns að umgangast foreldri sitt og að ríkar ástæður þurfi til að víkja frá þeirri meginreglu að stefna að sameiningu fjölskyldunnar. Það samræmist og þessari túlkun að Mannréttindadómstóll hafi ítrekað staðfest þá lagatúlkun að 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, um friðhelgi fjölskyldu og einkalífs, feli í sér að forðast skuli í lengstu lög að leysa upp fjölskyldur og að börn eigi rétt á góðum tengslum við foreldra sína og systkini.

Á því sé byggt að barnið hafi ótvíræða hagsmuni af því að umgangast kæranda sem mest. Í rauninni eigi stúlkan að vera löngu komin aftur til móður sinnar. Engar forsendur fyrir vistun utan heimilis séu fyrir hendi og hafi ekki verið um langa hríð. Staðfesti gögn málsins það, þar með talið umsagnir eftirlitsaðila með umgengni, umsagnir leikskóla og mat sérfræðings á forsjárhæfni. Kærandi sé edrú og í langtímabata. Í gögnum málsins sé það staðfest að kærandi sé vel forsjárhæf þegar hún haldi bindindi og hafi sérfræðingur mælt með aukinni umgengni samhliða áframhaldandi bindindi, sbr. forsjárhæfnismat frá 14. september 2020.

Samkvæmt umsögnum eftirlitsmanna hafi umgengni undantekningarlaust gengið mjög vel. Þessu til stuðnings sé vísað í skráningar eftirlitsmanns með umgengni allt tímabilið. Undantekningarlaust hafi stúlkan hlaupið í fang kæranda, tekið kæranda fagnandi og kærandi sinnt stúlkunni vel og þær átt góðar stundir saman.

Úrskurður barnaverndarnefndar um skerta umgengni gangi í berhögg við ráðleggingar sérfræðings samkvæmt forsjárhæfnismati frá 14. september 2020. Þar ráðleggi matsmaður áframhaldandi stuðning kæranda, að hún sæki meðferð á V og að umgengni verði aukin smátt og smátt, haldi hún edrúmennsku. Engar forsendur séu fyrir svo skertri umgengni kæranda við stúlkuna sem þar að auki gangi þvert á vilja stúlkunnar sem þráir ekkert meira en að hitta kæranda meira.

Réttur barns til að tekið sé tillit til vilja þess

Úrskurðurinn beri með sér þá afstöðu að það sé stúlkunni fyrir bestu að vilji stúlkunnar til aukinnar umgengni við kæranda sé virtur að vettugi. Þetta viðhorf gangi í berhögg við þá meginreglu barnaréttar að barn skuli hafa rétt til að tjá sig um mál sem það varði og að tekið sé mið af vilja þess við ákvarðanir sem varði hagsmuni þess. Kveðið sé á um þennan rétt í 12. gr. barnasáttmálans en eðli málsins samkvæmt sé tilgangslaust að barni sé leyft að tjá sig ef ekkert tillit sé tekið til vilja barnsins. Þessi regla sé áréttuð í 3. mgr. 1. gr. barnalaga, 2. mgr. 23. gr. bvl., 2. mgr. 46. gr. bvl., auk 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Þá skuli bent á fordæmisgefandi dóm Hæstaréttar í máli nr. 58/2019 þar sem staðfest hafi verið skýr vilji barns sem búi hjá fósturforeldrum um hvar það eigi búa framvegis, skuli vega þungt þegar forsjársvipting komi til álita. Sömu sjónarmið eigi við þegar barn láti í ljós skýran vilja um umgengni við foreldri sitt. Þá hafi Hæstiréttur ómerkt héraðsdóma sem virði vilja barns að vettugi við málsmeðferð.

Á því sé byggt að með úrskurði sínum hafi barnaverndarnefnd hunsað vilja stúlkunnar í stað þess að taka tillit til hans í samræmi við aldur og þroska stúlkunnar. Margsinnis komi fram í gögnum málsins að stúlkan óski eftir meiri umgengni við kæranda. Þessar óskir láti stúlkan, aðeins fimm ára gömul, ótvírætt í ljós, þrátt fyrir langvarandi umgengnistálmanir af hálfu Barnaverndar B og þrátt fyrir að sú litla umgengni sem stúlkan hafi haft við kæranda síðasta árið hafi farið fram undir eftirliti. Þvert á þær óskir sé með úrskurði barnaverndarnefndar dregið enn frekar úr umgengni þeirra. Engar skýringar hafi fengist á því hvers vegna ekki ætti að virða skýran vilja barnsins um aukna umgengni við kæranda. Sér í lagi þegar það sé fyrirsjáanlegt að ákvörðun barnaverndarnefndar valdi barninu mikilli angist og þjáningu.

Skyldubundið mat á því hvað telst barninu fyrir bestu

Það sé meginregla að það sem barni sé fyrir bestu skuli ráða þegar teknar séu ákvarðanir um líf þess og hagsmuni, sbr. 1. mgr. 3. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013, 2. mgr. 1. gr. barnalaga, 4. gr. bvl., auk friðhelgisákvæðis 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Réttur barns til umgengni við foreldra sína og skyldan til að taka tillit til vilja barnsins við meðferð mála sem varði það séu einnig meginreglur og verði að skoða hagsmuni barnsins í ljósi þeirra Á því sé byggt að við meðferð málsins hafi barnaverndarnefnd lítið sem ekkert tillit tekið til þessara meginreglna og þar með byggt úrskurð sinn á einhverjum allt öðrum sjónarmiðum en hagsmunum barnsins.

Þá sé með engu rökstutt í úrskurðinum hvernig nefndin telji það vera barninu fyrir bestu að slíta tengsl þess við kæranda, enda sé á því byggt að um mannréttindabrot af tilefnislausu sé að ræða sem sé óverjandi. Meginreglan um að það sem barni sé fyrir bestu sé víðtæk og feli í sér bæði form- og efnisreglu, sbr. dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu, sjá til að mynda dóm Penchevi gegn Búlgaríu. Af úrskurði barnaverndar megi ráða að ekkert slíkt skyldubundið mat á hagsmunum barnsins hafi farið fram í tengslum við ákvarðanir um umgengni þess við móður sína. Í allra besta falli sé það alls ófullnægjandi þar sem lykilmatsþáttum sé algerlega sleppt, þar með talið vilja barnsins.

Mat á því hvað teljist vera barninu fyrir bestu þurfi að vera ítarlegt og vel ígrundað, sbr. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Penchevi gegn Búlgaríu og N.TS. og aðrir gegn Georgíu, sbr. 1. mgr. 3. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og 1. gr. barnalaga. Í því mati vegi vilji barnsins einna mest, sbr. 12. gr. barnasáttmálans, og allt mat sem taki ekki nægjanlegt tillit til vilja barnsins sé að mati Mannréttindadómstóls gallað og ólögmætt, sbr. 9. og 12. gr. barnasáttmálans. Þá minni lögmaður kæranda á að samkvæmt Mannréttindadómstól Evrópu sé ekki nóg að stjórnvald haldi því fram að slíkt mat hafi verið gert, heldur verði stjórnvald að geta sýnt fram á það með rökstuddum hætti, sbr. General Comment nr. 14 frá barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna, en þessi ummæli leggi Mannréttindadómstóllinn til grundvallar þegar hann skýri meginreglur barnaréttar.

Við mat á því hvort þetta mat hafi verið gert skoði Mannréttindadómstóll Evrópu meðal annars eftirfarandi atriði; heildarfjölskylduaðstæður, auk margvíslegra og ýmislegra þátta, til að mynda tilfinningalegra, sálrænna, hvort stjórnvald hafi metið með eðlilegum hætti hagsmuni þeirra aðila sem málið varði með það meginmarkmið í huga að finna þá lausn sem best þjóni hagsmunum barnsins, sbr. málsgrein 55 í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Penchevi gegn Búlgaríu.

Á því sé byggt að við meðferð málsins hafi reglan um skyldubundið mat verið sniðgengin þar sem ekkert af þessu hafi verið metið af nefndinni. Eina sjónarmiðið sem virðist hafa verið lagt til grundvallar sé að ekki sé lengur stefnt að því að sameina fjölskylduna. Slíkt sjónarmið sé ólögmætt með öllu og hafi Mannréttindadómstóllinn ítrekað sagt að þegar fjölskyldur hafi verið sundraðar beri ríki skyldur til að sameina þær með öllum ráðum, nema slíkt sé með öllu ómögulegt, með tilliti til hagsmuna barnsins.

Vilji barnsins

Í máli þessu liggi fyrir þrjár skýrslur talsmanns. Þær eigi allar það sammerkt að stúlkan hafi verið eindregin í vilja sínum að hitta kæranda og búa hjá henni. Nýjasta skýrslan sé frá því í desember 2020. Í henni komi fram enn eindregnari vilji stúlkunnar til að hitta kæranda oftar og fá meiri umgengni. Þessi vilji stúlkunnar sé virtur að vettugi að öllu leyti við meðferð málsins. Virðist öflun skýrslunnar hafa verið formsatriði í augum nefndarinnar fremur en tæki til að virða vilja og mannréttindi stúlkunnar við ákvarðanatöku í málum sem varði líf hennar og hagi.

Um ófullnægjandi málsmeðferð og brot gegn ófrávíkjanlegum málsmeðferðarreglum að mati Mannréttindadómstóls Evrópu sé að ræða. Þá hafi Hæstiréttur ómerkt héraðsdóma sem taki ekki nægilega mikið tillit til vilja barns, sbr. til að mynda dóm Hæstaréttar í máli nr. 703/2017.

Af öllum öðrum skýrslum talsmanna sjáist glögglega afstaða stúlkunnar, það er að hún vilji búa hjá kæranda. Þessi skýri og eindregni vilji stúlkunnar hafi verið sá sami alla málsmeðferðina og virðist verða sterkari eftir því sem á líði. Sá vilji stúlkunnar sé virtur að vettugi af barnaverndarnefnd. Nefndin hafi gerst brotleg gegn 74. gr. bvl., enda hafi hún í engu tilliti tryggt stúlkunni eðlilega umgengni við kæranda frá því að hún hafi verið vistuð utan heimilis.

Kærandi byggi á því að brotið sé gegn meðalhófsreglu, sbr. 7. mgr. 74. gr. bvl., auk 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt úrskurði Barnaverndarnefndar B sé það markmiðið með þeirri íþyngjandi ákvörðun að takmarka umgengni kæranda og dóttur við tvær klukkustundir á mánuði undir eftirliti að tryggja að friður, ró, stöðugleiki og öryggi ríki í lífi barnsins í fóstri hjá fósturforeldrum þar sem markmiðið sé að tryggja því uppeldi og umönnun innan fjölskyldu þess svo sem best henti þörfum þess. Enginn dómur liggi fyrir um ráðstöfun stúlkunnar í varanlegt fóstur. Engu að síður felli barnaverndarnefnd úrskurð um að þjóna markmiði í samræmi við væntingar nefndarinnar um dómsniðurstöðu. Helst sé að sjá að markmið barnaverndar sé að slíta tengsl mæðgnanna því að barnavernd hafi tekið ákvörðun um að sundra fjölskyldunni. Krafa um forsjársviptingu hafi ekki verið til lykta leidd fyrir dómi. Sú krafa stríði auk þess gegn meðalhófsreglu sem útfærð sé í 2. mgr. 29. gr. bvl. Sá málatilbúnaður nefndarinnar byggi auk þess nánast eingöngu á röngum eða villandi yfirlýsingum um staðreyndir máls.

Á því sé byggt að ef markmiðið væri í reynd að tryggja stúlkunni ró, öryggi og stöðugleika væri augljóslega hægt að ná því með vægara móti, svo sem aukinni umgengni og umgengni án eftirlits með skilyrðum. Ekki verði séð að neina nauðsyn beri til að fara svo strangt í sakirnar sem raun beri vitni. Ekki sé rökstutt hvers vegna þörf sé á eftirliti í umgengni, til dæmis reyni nefndin ekki einu sinni að leyna því ólögmæta markmiði sínu að slíta tengslin þar sem nefndin hafi ákveðið að stúlkan fari ekki aftur til kæranda.

Kærandi byggi á því að brotið sé gegn rannsóknarreglu og andmælarétti. Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga skuli stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en tekin sé ákvörðun í því. Andmælaréttur, sem 13. gr. laganna kveði á um, þjóni einmitt þeim tilgangi að upplýsa mál nægjanlega. Rannsóknarreglan sé áréttuð og útfærð í 1. mgr. 22. gr. bvl.

Í úrskurði Barnaverndarnefndar B sé rakin í grófum dráttum þau rök og sjónarmið sem færð sé fram í greinargerð kæranda. Í greinargerð kæranda sé meðal annars bent á gögn sem beinlínis afsanni staðhæfingar um að kærandi sé í afneitun varðandi fíknisjúkdóm sinn, fáist ekki til samtarfs við barnaverndaryfirvöld og vanræki umgengni við barnið. Hvorki sé þeim rökum þó svarað né heldur tekið minnsta tillit til þeirra sjónarmiða sem fram komi í greinargerð kæranda. Það gefi augaleið að andmælaréttur þjóni ekki þeim tilgangi að upplýsa mál svo að hægt sé að taka réttmæta ákvörðun ef þau andmæli séu í engu skoðuð. Þar með hafi andmælaréttur í reynd ekki verið virtur.

Ólögmæt sjónarmið

Á því sé byggt að hefði Barnavernd B verið alvara með að sinna rannsóknarskyldu sinni hefðu starfsmenn hennar komið í kring eftirliti með kæranda á meðan hún dvaldi fyrir vestan, líkt og hún hafi ítrekað óskað eftir. Þess í stað hafi starfsmenn barnaverndarnefndar ítrekað mætt í óboðað eftirlit á heimili kæranda í H þegar þeir hafi vitað að hún hefði verið fyrir I og þrátt fyrir að hún hefði upplýst um vilja sinn til að taka á móti óboðuðum heimsóknum á heimili sínu fyrir vestan og undirgangast vímuefnapróf í umdæmi E. Reyndar hafi engin tilraun verið gerð til þess af hálfu barnaverndar að kanna aðstæður kæranda fyrir I, það er á lögheimili hennar og stúlkunnar, hvorki með beinu eftirliti né með því að leita umsagna föður kæranda eða annarra sem hún hafi verið í samskiptum við fyrir I. Þess megi geta að kærandi hafi tekið á móti óboðuðu eftirliti í september síðastliðnum í H. Það hafi gengið vel, kærandi hafi verið edrú en um það sé ekkert fjallað í úrskurði barnaverndarnefndar.

Enn fremur sé á því byggt að við fullnægjandi rannsókn hefði barnaverndarnefnd ekki aðeins metið stöðu og ástand stúlkunnar eins og það sé í dag heldur einnig borið það saman við stöðu hennar og ástand þegar hún hafi verið tekin úr umsjá kæranda. Eins hafi nefndinni borið að meta hvaða afleiðingar það hefði fyrir stúlkuna, hagsmuni hennar og líðan að taka þá ákvörðun sem tekin hafi verið og hvaða áhrif það hefði á hag og líðan stúlkunnar að fallast til dæmis á þær kröfur sem kærandi hafði uppi um umgengni. Þetta hafi ekki verið skoðað. Vont sé að sjá hvernig hendi sé kastað til þegar taka eigi ákvarðanir um einkalíf fólks og fjölskyldusambönd.

Gögnin sýni ótvírætt að þegar afskipti barnaverndarnefndar hafi hafist, hafi stúlkan verið örugg og sæl. Í umsögn frá leikskóla í september 2017 komi fram að stúlkan sé „glöð og opin“, sbr. dagáll frá 18. september 2017. Stúlkan sé þrátt fyrir það tekin úr umsjá kæranda og send til ömmu sinnar fyrir norðan. Eftir þriggja vikna dvöl treysti amman sér ekki til að vera með barnið og móðursystir hafi tekið við, sbr. dagáll 27. september 2017. Um miðjan nóvember synji barnaverndarnefnd umsókn móðursystur um fóstur og í fyrri hluta desember sé barninu komið í fóstur til föðurbróður síns. Þann tíma sem stúlkan dvelji hjá ættingjum sé umgengni þess við kæranda takmörkuð, án þess að sú ákvörðun sé skýrð. Stúlkan fari svo heim til kæranda um mánaðamótin maí-júní 2018 en sé rifin frá henni aftur 6. desember 2019 og hafi nokkrum dögum síðar verið flutt til vistforeldra í K. Ekki verði annað séð en að meint óöryggi barnsins, sem sé tíundað í skýrslum barnaverndarnendar, sé bein afleiðing af afskiptum barnaverndar, þvælingi úr einum stað í annan og aðskilnaði barnsins við kæranda. Þessi veigamiklu atriði hafi algerlega orðið útundan við rannsókn málsins. Þá hafi engin rannsókn farið fram á högum barnsins eða nauðsyn vistunar utan heimilis eða tímalengd þeirrar vistunar í desember 2019 þegar stúlkan hafi verið sett í vistun. Þá hafi aðstæður stúlkunnar á lögheimili hennar fyrir vestan ekki verið kannaðar. Þá verði að teljast undarlegt að við mat á hæfilegri umgengni leggi barnaverndarnefnd ekkert upp úr þeirri staðreynd að umgengni hafi undantekningarlaust gengið vel og stúlkan ávallt verið ánægð að sjá kæranda og tekið henni fagnandi.

Þegar á heildina sé litið verði ekki betur séð en að mat barnaverndarnefndar á umgengnisþörf barnsins og forsjárhæfni kæranda allt árið 2020 byggist ekki á gögnum, heldur á fordómafullri afstöðu einstakra starfsmanna barnaverndar sem eigi ekki við rök að styðjast. Ljóst sé af ofangreindu að Barnavernd B hafi brugðist rannsóknarskyldu sinni sem og skyldu sinni til að veita andmælarétt og það í þágu ólögmætra markmiða. Grundvallarmannréttindi séu brotin og tekin ákvörðun sem sé fyrirsjáanlegt að muni valda stúlkunni angist og þjáningu, sbr. nýjasta skýrsla talsmanns frá desember 2020.

Á því sé byggt að við meðferð máls hafi ekki aðeins verið litið fram hjá hagsmunum barnsins og meginreglum barnaréttar heldur byggist úrskurðurinn beinlínis á ólögmætum sjónarmiðum og óvönduðum stjórnsýsluháttum.

Byggt á sögusögnum frá vistforeldrum

Við mat það sem liggi úrskurði Barnaverndar B til grundvallar sé viðhöfð vélræn nálgun byggð á ósönnuðum ályktunum um meinta neyslu kæranda og sé, að því er virðist, vegna þráhyggju starfsmanna barnaverndarnefndar fyrir óboðuðu eftirliti án þess að ljóst sé hvaða þýðingu það geti haft fyrir forsjárhæfni eða umgengnisrétt kæranda og stúlkunnar að vera ekki heima þegar starfsmaður barnaverndarnefndar mæti óboðaður heim til hennar og það þótt hún hafi áður tilkynnt barnaverndarnefnd um dvöl sína hjá föður sínum á Í.

Margar fullyrðingar séu í úrskurðinum sem eigi sér ekki stoð í gögnum málsins og sýnt sé fram á að sumar þeirra séu beinlínis rangar. Mikilvægum upplýsingum sem liggi fyrir í gögnum málsins og séu kæranda í hag, sé sleppt algjörlega í úrskurði og greinargerðum barnaverndarnefndar, til að mynda upplýsingum um hreinar vímuefnaprufur sem hún hafi skilað og einblínt á þessa einu sem hafi verið jákvæð sumarið 2020. Fullyrðingar starfsmanna barnaverndar í hinum og þessum skýrslum um atvik máls geti ekki talist fullnægjandi sönnun, án þess að studd sé öðrum óyggjandi gögnum.

Þegar meðferð Barnaverndar B á máli kæranda sé skoðuð í heild sinni verði ekki betur séð en að fyrrnefndur umgengnisúrskurður byggist á ólögmætum sjónarmiðum. Þau helstu séu eftirfarandi. Að órökstuddur grunur starfsfólks barnaverndarnefndar um meinta óvissu um edrúmennsku kæranda sé grundvöllur til að skerða umgengnisrétt stúlkunnar og kæranda að því marki að útilokað sé að tengsl þeirra verði nokkru sinni eðlileg. Að sú staðreynd að kærandi hafi átt við vímuefnavanda að etja geri hana sjálfkrafa svo óhæfa til að sinna stúlkunni ekki sé óhætt að treysta henni til eftirlitslausrar umgengni í nokkrar klukkustundir, þrátt fyrir hrein vímuefnapróf. Þetta sé ekki lögmætt sjónarmið heldur fordómar í garð kæranda sem hafi unnið markvisst að því að ná heilsu og sé í langtímabata. Að hlutverk barnaverndaryfirvalda sé að refsa kæranda fyrir sjúkdóm sinn með því að synja henni án frekari skýringa um aukna umgengni við stúlkuna og neita jafnvel að greiða fyrir því að hún fái að gefa stúlkunni jólagjöf. Að kærandi njóti ekki frelsis til að dvelja um tíma í öðrum landshluta og að hlutverk barnaverndarnefndar sé að refsa barninu fyrir það með því að skerða umgengni stúlkunnar við kæranda, þvert á vilja þess. Að óljósir og órökstuddir hugarórar fósturforeldra um meint ástand kæranda þegar umgengni fari fram skuli hafa áhrif á ákvörðun um umgengni hennar við stúlkuna. Að leggja til grundvallar mat fósturforeldra á líðan barns eftir umgengni þegar yfirlýsingar þeirra hafi stangast á við sönnunargögn málsins. Gæta verði þess að hagsmunir fósturforeldra af því að fá stúlkuna til sín varanlega, gangi í berhögg við hagsmuni kæranda og dóttur hennar um að sameinast á ný. Það að umgengni hafi verið óregluleg sé ástæða til að skerða umgengni enn frekar. Jafnframt að markmið nefndarinnar sé að slíta tengslin því að nefndin hafi tekið ákvörðun um forsjársviptingu. Dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hafi margstaðfest að um ólögmætt sjónarmið sé um að ræða.

Jafnframt sé á því byggt að ekkert þeirra sjónarmiða sem komi fram í úrskurði nefndarinnar sé lögmætt né skipti máli við mat á umgengni. Byggt sé á sögusögnum frá fósturforeldrum. Í greinargerð barnaverndar sé eftirfarandi fært fram sem rök fyrir því að kærandi eigi að hafa sem minnst af því að segja: „að mati fósturforeldra virðist umgengni hafa áhrif á stelpuna og fer það alfarið eftir því hvernig móðir er upplögð í umgengni.“ Það sé undarlegt að byggja úrskurð að hluta á þessu sjónarmiði. Í fyrsta lagi verði ekki séð hvaða stöðu fósturforeldrar hafi, sem hafi andstæðra hagsmuna að gæta á við kæranda, enda óskað eftir því að fá stúlkuna til sín varanlega. Það valdi stúlkunni angist að vera aðskilin frá kæranda eftir stutta umgengni, þvert á vilja stúlkunnar sem vilji meiri umgengni. Þá væri mjög óeðlilegt ef umgengni hefði ekki áhrif á stúlkuna, enda sé kærandi móðir hennar sem hún elski og þrái að vera með. Eðli málsins samkvæmt hafi stúlkan tilfinningar og hennar heitasta ósk sé að vera hjá kæranda og búa hjá henni.

Sérstaklega undarlegt sé að fósturforeldrar telji sig geta metið áhrif umgengni á stúlkuna út frá meintu upplagi kæranda í umgengni. Fósturforeldrar séu ekki viðstaddir umgengni og sjái ekki hvert meint upplag kæranda í umgengni sé. Þá stangist þessar yfirlýsingar fósturforeldra á við skýrslur eftirlitsmanns sem auðvitað eigi að leggja til grundvallar en ekki hugaróra fósturforeldra.

Einnig má benda á að frásögn fósturforeldra virðist ekki alltaf vera sannleikanum samkvæmt, en í eitt skipti hafi fósturforeldrar tjáð starfsmanni barnaverndar að stúlkan hefðí ekki viljað fara í umgengni og að það hafi gengið erfiðlega að fá hana í umgengni. Samkvæmt orðum eftirlitsaðila hafi stúlkan verið glöð að sá kæranda í þessari umgengni og stokkið strax í fangið á henni. Þá stangist framburður fósturforeldra einnig á við orð stúlkunnar sjálfrar í skýrslum talsmanna.

Með tölvupósti, dags. 2. desember 2020, hafi lögmaður kæranda gert athugasemdir við að nefndin væri að byggja meint áhrif umgengni á stúlkuna á frásögn fósturforeldra en þeir væru hvorki sérfróðir né óháðir, enda hefðu þeir hagsmuna að gæta sem væru á öndverðum meiði við kæranda og stúlkuna. Þess hafi verið krafist, teldi nefndin nauðsynlegt að gera slíkt mat, að það yrði gert af óháðum og sérfróðum aðila. Í svarbréfi starfsmanns barnaverndar komi fram að slíkt mat væri gert af starfsmönnum leikskóla stúlkunnar og þeir væru bæði sérfróðir og óháðir aðilar. Þrátt fyrir þetta byggi nefndin á frásögn fósturforeldra um meint áhrif umgengni á stúlkuna og noti það meðal annars sem rök fyrir frekari takmörkun á umgengni.

Á því sé byggt að mat fósturforeldra geti ekki með nokkru mót haft neitt að segja, enda hafi þeir sem fyrr greinir hagsmuni af því að stúlkan hitti kæranda, enda markmið þeirra að fá stúlkuna til sín varanlega. Þetta megi starfsmenn barnaverndar vita. Í þessu sambandi sé vísað til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2051/1997 og á því byggt að um óvandaða stjórnsýsluhætti sé um að ræða.

Valdþurrð Barnaverndar B í málinu

Auk ofangreindra annmarka byggi kærandi á því að hinn kærði úrskurður sé ómerkur af þeirri ástæðu að hann hafi verið kveðinn upp í valdþurrð.

Þann 2. desember 2020 hafi lögheimili kæranda og stúlkunnar verið flutt I í umdæmi E. Starfsmönnum barnaverndar hafi verið kunnugt um þetta, enda hafi þeim verið send tilkynning um það samdægurs og vissu þar að auki að lengi hefði staðið til að kærandi flytti vestur. Svar starfsmanns barnaverndar hafi verið að sjá til hvort Barnavernd E samþykkti að málin yrðu áfram á borði Barnaverndar B. Fullyrt sé í úrskurði nefndarinnar að þetta hafi verið samþykkt og vísað í undantekningarreglu 3. mgr. 15. gr. bvl. Lögmaður kæranda hafi ekkert heyrt varðandi þetta en bendi á að slík ákvörðun um flutning máls á milli embætta myndi flokkast sem stjórnsýsluákvörðun þar sem kærandi hafi andmælarétt, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, auk óskráðra reglna stjórnsýsluréttarins.

Það sé utan lögbundins hlutverks Barnaverndarnefndar B að úrskurða í þessu máli. Um valdssvið nefndarinnar sé fjallað í 15. gr. bvl. Meginreglan sé sú að nefnd í því umdæmi þar sem barn eigi fasta búsetu, eigi úrlausn um málefni þess. Flytjist lögheimili barns úr umdæmi nefndar á meðan hún hafi málið til meðferðar sé meginreglan sú að málið beri að flytja til þeirrar nefndar sem hafi lögsögu í því umdæmi sem flutt sé til, sbr. 2. mgr. 15. gr. bvl. Undantekningarreglur frá meginreglunni um tafarlausan flutning máls séu tvenns konar, sbr. 3. mgr. 15. gr. bvl. Í fyrsta lagi sé heimild til að reka mál, ef hentugra þyki, í öðru umdæmi vegna dvalar barns þar um lengri eða skemmri tíma, þ.e. í því umdæmi sem barnið dveljist í, geti viðkomandi barnaverndarnefndir samið sín á milli um það. Þá þurfi eftirfarandi skilyrði að vera uppfyllt:

  1. Barnið þarf að vera með fastan dvalarstað til lengri eða skemmri tíma í því umdæmi sem nefndin sem hyggst fara með málið á lögsögu.
  2. Slík ráðstöfun þarf að vera hentugri í skilningi laga.
  3. Viðkomandi barnaverndarnefndir þurfa að gera samning um slíkt sín á milli.

Ekkert framangreindra skilyrða sé uppfyllt. Stúlkan eigi lögheimili á E. Stúlkan sé í fóstri í K. Kærandi sé með lögheimili á E. Engin tengsl málsins séu við umdæmi H.

Gildi því einu hvort nefndin hafi aflað samþykkis Barnaverndarnefndar E eftir á. Skilyrðið sem lýst sé í fyrsta lið sé ekki uppfyllt. Þá sé þar að auki vandséð hvernig barnaverndarnefnd geti tekið slíka ákvörðun um flutning upp á sitt einsdæmi en á því sé byggt að óskráðar stjórnsýslureglur gildi að lágmarki um slíka ákvarðanatöku, þar með talinn andmælaréttur en hans hafi ekki verið gætt.

Síðari undantekningin, og í reynd eina tæka undantekningin í þessu máli, er samkvæmt 3. mgr. 15. gr. bvl. Samkvæmt henni geti Barnaverndarstofa mælt fyrir um að önnur nefnd en sú þar sem barn eigi lögheimili fari með mál ef það sé talið tryggja betur meðferð þess. Slík ákvörðun sé kæranleg til [úrskurðarnefndar velferðarmála]. Engin slík ákvörðun Barnaverndarstofu liggi fyrir í máli þessu. Um valdþurrð sé þar af leiðandi að ræða hjá Barnaverndarnefnd B til að reka þetta mál sem leiði til ógildingar úrskurðar.

Rök fyrir aukinni umgengni

Varðandi rök fyrir aukinni umgengni vísar kærandi til þess að á því tímabili sem stúlkan hafi verið vistuð utan heimilis, hafi hún sótt um stuðning og unnið í sínum málum, verið í stöðugum samskiptum við barnavernd, uppfyllt allar sínar skyldur samkvæmt meðferðaráætlunum sem gerðar hafa verið  á tímabilinu og sótt fast eftir því að fá meiri umgengni við stúlkuna. Þá liggi fyrir skýr vilji stúlkunnar um að vera hjá kæranda. Stúlkan hafi lýst því yfir að henni líði vel þar sem hún sé, en líka hjá kæranda og að hún vilji búa hjá kæranda og að hún sakni hennar. Umgengni hafi gengið mjög vel og stúkan hafi verið mjög ánægð í umgengni og kærandi sinnt henni vel. Kærandi hafi hafið sex vikna göngudeildarmeðferð á V fyrir fólk með fjölþættan vanda og gangi meðferðin mjög vel. Þrátt fyrir að vera flutt vestur dvelji hún flesta daga vikunnar í H til að sinna meðferðinni, umgengni og fleiru. Þegar meðferðinni ljúki fari hún alfarið vestur.

Kærandi eigi fallegt og gott heimili ásamt föður sínum á sveitabæ á E þar sem séu alls konar dýr og öruggt umhverfi. Hún sé því í kjöraðstöðu til að veita stúlkunni heimili, öryggi og stöðugleika. Kærandi hafi farið fram á að fá stúlkuna til sín aðra hvora helgi, frá föstudegi til sunnudags, auk vikulegra samskipta í gegnum fjarfundabúnað. Í þeirri umgengni fengi stúlkan einnig að hitta eldri systkini sín og eiga tíma með þeim. Ekki verði séð að neitt sé þessu til fyrirstöðu svo fremi sem kærandi haldi bindindi en staðfest sé að þegar hún sé edrú sé kærandi góð og hæf móðir. Kærandi sé tilbúin til að halda áfram að mæta í vímuefnapróf fyrir hverja umgengni og jafnvel oftar, líkt og hún hafi gert allt árið. Kröfur kæranda séu í samræmi við niðurstöðu matsmanns í forsjárhæfnismati frá september 2020.

Ekki sé nokkur ástæða til að ætla annað en að kærandi haldi bindindi, líkt og hún hafi gert undanfarið ár. Þá sé hún stöðugt að vinna í sínum bata. Engin nauðsyn sé á að stía þessari fjölskyldu í sundur, núna loksins þegar kærandi sé komin í langtímabata og allt horfi til betri vegar. Þvert á móti sé núna rétti tíminn til að fara að auka umgengni og styðja við bakið á kæranda og dóttur hennar svo að þær geti sameinast á ný og átt fallegt, kærleiksríkt fjölskyldusamband um ókomna tíð. Viðurkennt og gengið sé út frá því í barnaverndarstarfi að frumgeðtengsl, sem barnið búi við alla ævi, myndist á fyrstu tveimur árum í lífi þess. Þann tíma hafi kærandi farið ein með umönnun stúlkunnar og bendi viðbrögð stúlkunnar við umgengni og eindregnar óskir hennar um meiri umgengni við kæranda til þess að þau tengsl séu góð og djúprætt. Stúlkan sé x ára gömul og hafi nú verið frá kæranda í eitt ár. Þótt það sé langur tími í lífi stúlkunnar sé það skammur tími miðað við allt líf hennar framundan og því séu engin rök til annars en að vinna málið í samræmi við þá meginreglu barnaréttar að stuðla að sameiningu fjölskyldunnar. Stúkan eigi rétt á því að vera hjá kæranda og eldri systkinum og njóta samvista við þau.

Miðað við umfang máls og flækjustig óski lögmaður kæranda eftir því að fá að koma fyrir úrskurðarnefndina og gera nánari grein fyrir framangreindu. Það sé til þess fallið að málið skýrist betur og upplýsist fyrir nefndinni, sér í lagi í ljósi þess hversu miklar rangfærslur sé að finna bæði í úrskurði barnaverndarnefndar, auk annarra gagna sem stafi frá starfsfólki barnaverndar.

Í athugasemdum kæranda, dags. 26. febrúar 2021, kemur fram að þann 4. desember 2020 hafi Barnavernd B höfðað tvö mál til forsjársviptingar gegn kæranda fyrir Héraðsdómi B vegna tveggja dætra hennar. Þá hafi verið í gildi úrskurður Barnaverndarnefndar B um vistun yngri stúlkunnar utan heimilis í tvo mánuði frá 13. október 2020. Á grundvelli 2. mgr. 28. gr. bvl. hafi sú vistun framlengst á meðan það dómsmál hafi verið rekið. Þar sem málin voru höfðuð á röngu varnarþingi stóð til að fella þau niður og hafi ný mál verið höfðuð þann 11. desember 2020 fyrir Héraðsdómi Í. Barnaverndarnefnd B hafi krafist frávísunar, meðal annars á grundvelli litis pendens þar sem fyrri málin hefðu ekki verið felld niður með úrskurði, líkt og lög geri áskilnað um. Af þeim sökum hafi síðari málum Barnaverndarnefndar B verið vísað frá dómi þann 22. janúar 2021. Fyrri málin hafi verið tekin fyrir á ný í Héraðsdómi B þann 27. janúar 2021 og þau verið felld niður með úrskurði. Barnaverndarnefnd B hafi ekki tryggt áframhaldandi vistun barnsins og vistunin því fallið niður 27. janúar 2021.

Af þessu sé ljóst að hinn kærði úrskurður um umgengni, sem hafi verið kveðinn upp 22. desember 2020, og kærður hafi verið til úrskurðarnefndar velferðarmála þann 15. janúar 2021, sé fallinn úr gildi. Stúlkan sé komin aftur í umsjá kæranda og hafi verið þar frá 27. janúar 2021.

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. bvl. ráðist valdsvið barnaverndarnefndar af lögheimilisskráningu barns. Frá 1. mgr. 15. gr. bvl. séu gerðar undantekningar ef hentugra þyki að mál sé að einhverju eða að öllu leyti rekið í öðru umdæmi en þar sem barn eigi fasta búsetu vegna dvalar barns þar um lengri eða skemmri tíma, sbr. greinargerð með frumvarpi því sem varð að 15. gr. bvl., og geti viðkomandi barnaverndarnefndir þá samið um það sín á milli.

Vistun stúlkunnar hafi lokið 27. janúar 2021 með niðurfellingu forsjársviptingarmálanna fyrir Héraðsdómi B. Þar með hafi því máli lokið endanlega. Engin áætlun hafi verið í gildi né sé í gildi. Ekkert barnaverndarmál sé því í gangi. Barnaverndarnefnd B hafi því ekki verið bær til að höfða forsjársviptingarmál þann 28. janúar 2021.

Sé barnaverndarmál á annað borð fyrir hendi, sem sé ekki, heyri það undir umdæmi E, sbr. 1. mgr. 15. gr. bvl., og úrskurð Landsréttar nr. 523/2020. Starfsmenn Barnaverndarnefndar B og borgarlögmaður hafi borið fyrir sig meint samþykki starfsmanns Barnaverndar E um „áframhaldandi vinnslu málsins“ hjá H, sbr. 3. mgr. 15. gr. bvl. Barnaverndarnefnd B hafi tekið undir þetta sjónarmið, þrátt fyrir að lög bjóði augljóslega annað. Það að nefndin á E hafi „staðfest“ samþykki starfsmanna sinna, sem veitt hafi verið 14. desember 2020, á fundi 3. febrúar 2021, hafi ekki nokkra minnstu þýðingu hér. Í fyrsta lagi megi sjá af bréfi starfsmanns Barnaverndarnefndar B til starfsmanna Barnaverndarnefndar E, dags. 4. desember 2020, þar sem óskað sé eftir heimild til að vinna mál dætra kæranda áfram í H að þar sé vísað í vistunarmálið, sem þá hafi verið rekið, og svo forsjársviptingarmálin sem þá hafi verið rekin fyrir Héraðsdómi B. Báðum þessum málum hafi því verið lokið þegar hinn kærði úrskurður hafi verið kveðinn upp, þ.e. vistun fallin niður og dómsmálin felld niður þann 27. janúar 2021. Þar með sé að sjálfsögðu einnig lokið umgengnismáli því sem kært hafi verið til úrskurðarnefndarinnar þann 15. janúar 2021. Ljóst sé því að samþykki þetta gildi fyrir mál sem sé að fullu lokið. Þegar af þeirri ástæðu verði það ekki lagt til grundvallar ólögmætri valdatöku Barnaverndarnefndar B.

Þessu til viðbótar séu fjölmargar aðrar ástæður fyrir því að Barnaverndarnefnd B geti ekki borið fyrir sig undanþágu 3. mgr. 15. gr. bvl. Þar að auki beri að skýra allar undanþágur frá meginreglum þröngt. Meginreglan sé því sú að málið heyri undir Barnavernd E. Undanþágan sem starfsmenn og nefndin byggi á sé að finna í 3. mgr. 15. gr. bvl. Í fyrsta lagi megi sjá af greinargerð með frumvarpi ákvæðisins að heimildin sé bundin við að framselja vald til nefndar af því að það þyki hentugra að mál sé rekið í því umdæmi og vegna dvalar barns þar um lengri eða skemmri tíma, en skriflegur samningur þurfi að vera fyrir hendi á milli nefndanna sjálfra.

Engu framangreindra skilyrða sé fullnægt. Ekki verði með nokkru móti séð að hentugra sé að reka málið íH. Enginn skriflegur samningur um flutning máls sé á milli nefndanna. Í umboði nefndarinnar í H felist engin heimild handa starfsmönnum til að gera slíkan samning um að reka mál áfram í H, heldur aðeins að samþykkja að mál verði rekin í öðrum umdæmum. Stúlkan búi og dveljist á E. Þar áður hafi stúlkan verið í vistun í K. Hugsanlegt hefði verið að beita heimildinni til að framselja málið til yfirvalda í K þá, en því hafi lokið þegar vistuninni lauk. Engin tengsl séu við H Aðfarir nefndarinnar og starfsmanna gegn kæranda séu því gerðar í fullkominni valdþurrð.

Samþykkið sem Barnaverndarnefnd Bhafi borið fyrir sig hafi verið veitt um mál sem hafi lokið endanlega með niðurfellingu 27. janúar 2021. Það hafi ekkert gildi fyrir nýtt mál sem Barnaverndarnefnd B sé nú að reyna að hefja. Samþykkið geti þar að auki ekki verið algilt um öll mál sem varði stúlkuna um alla framtíð, en eðli málsins samkvæmt geti slíkt samþykki bara átt við um tiltekið mál sem sé í gangi á þeim tíma sem samþykkið hafi verið veitt. Allar undanþágur beri að túlka þröngt og ljóst að hér sé Barnaverndarnefnd B að reyna bera fyrir sig undanþágu frá meginreglunni. Enn fremur segi í reglugerð nr. 54/2006 að gera þurfi skriflegan samning á milli nefnda um slíkan flutning þar sem skýrt komi fram hver verkefni og umboð eigi að vera við slíkan flutning á máli á milli umdæma. Ekkert slíkt liggi fyrir. Slíkur flutningur verði ekki framkvæmdur með bókun í fundargerð. Að auki væri slík ákvörðun um flutning máls á milli umdæma talin til stjórnvaldsákvörðunar þar sem gæta verði andmælaréttar, rannsóknarreglu og fleira. Ljóst sé að það skipti öllu máli fyrir kæranda hvort mál sé unnið hjá Barnavernd E, sem meti engar forsendur vera fyrir hendi til frekari aðgerða gegn kæranda og dóttur hennar, eða á hendi Barnaverndarnefndar B sem með offorsi, lögbrotum og mannréttindabrotum ætli sér að hrifsa stúlkuna frá kæranda og svipta hana forsjá. Í ljósi þess sé fyllilega ljóst að báðum nefndum beri að gæta andmælaréttar kæranda við slíka samningsgerð áður en formlegur samningur um flutning máls sé gerður, sem hafi reyndar ekki verið gerður. Jafnvel þótt ekki yrði litið á slíkan samning um flutning máls sem stjórnvaldsákvörðun, yrðu nefndirnar þrátt fyrir það að gæta að óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttarins sem gildi samt sem áður, sér í lagi þegar svo mikil og þvingandi áhrif á líf og mannréttindi kæranda eigi við um slíka ákvarðanatöku, sbr. 38. gr. bvl.

Þar að auki og jafnvel þótt gerður yrði samningur, yrði að felast í honum rökstuðningur fyrir því af hverju það væri hentugra að reka málið áfram í H, sbr. 3. mgr. 15. gr. bvl. Þá sé ljóst af lestri og skýringu ákvæðisins og tilheyrandi lögskýringargögnum að engin leið sé að byggja á hugsanlegum framtíðarsamningi þar sem öll mál um alla framtíð séu framseld í annað umdæmi. Þá sé á það bent að starfsmenn Barnaverndarnefndar B hafi lýst því sjálfir yfir í tillögu sinni um vistun utan heimilis að ekki væri hægt að afla afstöðu barnsins, meðal annars vegna þess að stúlkan væri nú búsett á Í. Þegar af þeirri ástæðu sé ljóst að skilyrði um að það sé hentugra að reka málið áfram í H sé ekki uppfyllt, ef fórnarkostnaðurinn eigi að vera ófrávíkjanleg mannréttindi barnsins.

Í andsvörum sínum til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. febrúar 2021, beri Barnaverndarnefnd B fyrir sig að Barnaverndarnefnd á norðanverðum Í hafi staðfest að Barnaverndarnefnd B fari áfram með mál stúlkunnar. Með þeim rökum sem hér hafi verið rakin og með vísun til úrskurðar Landsréttar í máli nr. 523/2020 telji lögmaður kæranda sig hafa leitt í ljós að sá skilningur Barnaverndarnefndar B standist ekki lög og að ekkert barnaverndarmál tengt kæranda og börnum hennar sé til löglegrar meðferðar hjá nefndinni.

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Barnaverndarnefnd B gerir kröfu um að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Í greinargerð barnaverndarnefndar kemur fram að um sé að ræða X ára stúlku sem lúti forsjá kæranda. Foreldrar stúlkunnar hafi ýmist verið sundur eða saman frá fæðingu stúlkunnar. Málefni stúlkunnar hafi verið til vinnslu á grundvelli bvl. með hléum frá árinu 2016 til dagsins í dag. Þegar bókað hafi verið um umgengni kæranda við stúlkuna í tímabundnu fóstri hefðu alls 15 tilkynningar borist í málinu, meðal annars vegna fíkniefnaneyslu kæranda og vanrækslu gagnvart stúlkunni. Stúlkan hafi verið vistuð utan heimilis samanlagt í um tvö ár. Fyrst frá september 2017 til loka maí 2018 hjá föðurbróður sínum. Seinni vistun stúlkunnar hafi staðið frá desember 2019 þar til hinn kærði úrskurður hafi verið kveðinn upp 22. desember 2020.

Í samræmi við bókun Barnaverndarnefndar B, dags. 6. október 2020, og úrskurð nefndarinnar, dags. 13. október 2020, hafi borgarlögmanni verið falið að gera þá kröfu fyrir Héraðsdómi B að kærandi verði svipt forsjá stúlkunnar á grundvelli a- og d-liða 29. gr. bvl. Forsjársviptingarmálið sé nú rekið fyrir dómstólum. Kærandi hafi flutt lögheimili sitt og stúlkunnar að L við E þann 2. desember 2020. Þar sé móðurafi stúlkunnar einnig búsettur. Í samræmi við 7. gr. reglugerðar nr. 56/2002 um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd, hafi mál stúlkunnar verið unnið áfram hjá Barnavernd B, þrátt fyrir breytt lögheimili mæðgnanna. Í tilvitnaðri grein reglugerðarinnar segi að ef barnaverndarnefnd ráðstafi barni í fóstur eða vistun í annað umdæmi fari nefndin áfram með málið á meðan sú ráðstöfun vari. Þá segi einnig að ef forsjáraðili barns flytji úr umdæmi nefndar á meðan fóstur eða vistun vari skuli barnaverndarnefnd í umdæminu sem forsjáraðili flytji í taka við meðferð þess þegar fóstur- eða vistunarsamningur hefur verið felldur úr gildi, nema annað sé ákveðið í heimild 15. gr. bvl.

Á tímabili seinni fósturvistunar stúlkunnar sem hafi hafist í desember 2019 hafi kærandi 11 sinnum átt umgengni við stúlkuna, fyrst í desember 2019. Umgengni hafi átt að fara fram 15. febrúar 2020 en kærandi hafi ekki viljað undirgangast vímuefnapróf og umgengni ekki getað farið fram. Umgengni hafi farið fram þann 29. febrúar 2020 þess í stað. Því næst hafi kærandi átt umgengni við stúlkuna 22. apríl 2020. Kærandi hafi mælst jákvæð á vímuefnaprófi áður en umgengni átti að fara fram þann 9. maí 2020 og því hafi umgengni verið frestað til 23. maí 2020. Kærandi hafi átt umgengni við stúlkuna 6. júní og 10. júlí 2020. Kærandi hafi mælst jákvæð fyrir kókaíni á vímuefnaprófi sem hún hafi gengist undir 13. júlí 2020 og staðfesti niðurstaða lyfjaleitar, dags. 22. júlí 2020, að niðurbrotsefni kókaíns hafi verið í þvagi kæranda í umrætt sinn. Kærandi hafi átt umgengni við stúlkuna 9. ágúst 2020. Umgengni hafi síðan legið niðri frá þeim tíma og þar til 17. október 2020 þar sem starfsmönnum barnaverndar hafi gengið erfiðlega að ná í kæranda. Kærandi hafi átt umgengni við stúlkuna 21. nóvember 2020 og síðasta umgengni mæðgnanna áður en hinn kærði úrskurður hafi verið kveðinn upp, hafi verið 12. desember 2020. Umgengni hafi farið fram í Hraunbergi undir eftirliti starfsmanna Barnaverndar B.

Að mati fósturforeldra hafi umgengni virst hafa áhrif á stúlkuna og fari að þeirra sögn líðan stúlkunnar í kjölfar umgengni alfarið eftir því hvernig kærandi hafi verið upplögð á meðan á umgengni hafi staðið. Eftirlitsaðilar hafi greint frá því að umgengni gangi alla jafna vel og samskipti mæðgnanna séu góð. Upplýsingar frá fósturforeldrum og leikskóla stúlkunnar beri með sér að stúlkan hafi aðlagast vel á fósturheimilinu og líðan hennar sé góð. Ekki hafi náðst samkomulag um umgengni kæranda við stúlkuna í tímabundnu fóstri í kjölfar þess að borgarlögmanni hafi verið falið að gera þá kröfu fyrir dómi að kærandi yrði svipt forsjá stúlkunnar. Kærandi hafi krafist þess að fá stúlkuna í sína umsjá án tafar en til vara að eiga umgengni við stúlkuna tvisvar í viku, auk myndsímtala tvisvar í viku. Fjallað hafi verið um málið á fundi Barnaverndarnefndar B þann 15. desember 2020. Í greinargerð starfsmanna Barnaverndar B, dags. 7. desember 2020, komi fram að þar sem ekki sé lengur stefnt að því að stúlkan fari í umsjá kæranda telji starfsmenn að rífleg umgengni stúlkunnar við foreldra sína á meðan forsjársviptingarmál sé rekið fyrir dómstólum, verði mánaðarlega í tvær klukkustundir í senn, undir eftirliti í húsnæði Barnaverndar B. Starfsmenn hafi bent á að umgengni hefði fram að þessum tíma ekki alltaf getað farið fram og þá hefði umgengni aðeins farið fram í tvígang frá því í júlí 2020. Þessu til viðbótar hafi starfsmenn vísað í mat fósturforeldra þess efnis að umgengni virtist hafa áhrif á stúlkuna.

Stúlkunni hafi verið skipaður talsmaður í tengslum við fyrirtöku málsins hjá barnaverndarnefnd. Í skýrslu talsmanns, sem hafi borist Barnavernd B þann 14. desember 2020, komi fram að stúlkunni líði næstum alltaf vel en verði stundum leið og sakni kæranda. Stúlkan greini frá því að þykja vænt um kæranda og að hún vilji hitta kæranda oftar. Fram komi í skýrslu talsmanns að vegna ungs aldurs stúlkunnar skorti hana hugtök og skilning til þess að geta tjáð sig um hversu oft eða hve lengi hún vilji hitta kæranda.

Kærandi hafi mætt á fund Barnaverndarnefndar B þann 15. desember 2020 ásamt lögmanni sem hafi gert grein fyrir afstöðu kæranda. Fyrir fundinn lá jafnframt fyrir greinargerð lögmanns kæranda. Þar komi fram að kærandi vilji eiga umgengni við stúlkuna aðra hvora helgi frá föstudegi til sunnudags, auk umgengni einu sinni í viku með aðstoð fjarfundabúnaðar. Breytt afstaða kæranda til umgengni væri til komin vegna breytinga á lögheimili kæranda og stúlkunnar við E. Lögmaður kæranda hafi sagt að tillögur starfsmanna væru ekki í samræmi við hagsmuni stúlkunnar eða ákvæði 74. gr. bvl. Þá væru tillögurnar einnig í andstöðu við 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Þá hafi lögmaður sagt að þau rök, sem fram komi í greinargerð starfsmanna þess efnis að ekki væri stefnt að því að stúlkan færi aftur í umsjá kæranda að nýju, gangi gegn meginmarkmiði alls barnaverndarstarfs eins og það sé skilgreint í niðurstöðum Mannréttindadómstóls Evrópu og 3. mgr. 9. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Að mati lögmanns kæranda séu tillögur starfsmanna um umgengni ekki í samræmi við það sem fram komi í forsjárhæfnismati sem kærandi hafi gengist undir, dags. 14. september 2020.

Í bókun Barnaverndarnefndar B frá 15. desember 2020 og hinum kærða úrskurði nefndarinnar frá 22. desember 2020 taki Barnaverndarnefnd B undir mat starfsmanna og tillögur um umgengni. Barn sem sé í fóstri eigi rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem því séu nákomnir samkvæmt 74. gr. bvl. Samkvæmt sömu lagagrein eigi kynforeldrar rétt á umgengni við barn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun þess í fóstur. Tekið skuli mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Markmiðið í þessu máli, og í samræmi við úrskurð nefndarinnar frá 22. desember 2020, sé að stúlkan fari í varanlegt fóstur. Í ljósi þess sé lögð áhersla á að barnið upplifi öryggi og ró á fósturheimilinu. Meta verði umgengni með hliðsjón af hagsmunum stúlkunnar og það sé mat nefndarinnar að umgengni með þeim hætti sem kærandi óski eftir geti raskað ró barnsins sog stefnt í hættu þeim stöðugleika sem reynt hafi verið að tryggja stúlkunni á fósturheimilinu, sbr. og athugasemdir við 74. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 80/2002. Að mati nefndarinnar sé hæfilegt að umgengni stúlkunnar við kæranda verði einu sinni í mánuði í tvær klukkustundir í senn. Umgengni fari fram í húsnæði á vegum Barnaverndar B. Umgengni verði með þeim hætti á meðan forsjársviptingarmál sé rekið fyrir Héraðsdómi B.

Með ákvörðun Barnaverndarnefndar B þann 13. október 2020 hafi orðið sú breyting í vinnslu málsins að ekki sé stefnt að því að stúlkan fari aftur í umsjá kæranda heldur sé stefnt að því að hún alist upp í varanlegu fóstri. Í ljósi þess sé lögð áhersla á að hún upplifi öryggi og ró á fósturheimilinu og það sé mat nefndarinnar að rýmri umgengni en úrskurðað hafi verið um geti raskað ró stúlkunnar og stefnt í hættu þeim stöðugleika sem reynt hafi verið að tryggja á fósturheimilinu.

Umgengni samkvæmt 74. gr. bvl. þurfi að ákvarða í samræmi við hagsmuni og þarfir stúlkunnar. Rétturinn til umgengni og umfang hans geti verið takmarkaður og háður mati á hagsmunum stúlkunnar þar sem meðal annars beri að taka tillit til markmiðanna sem stefnt sé að með fósturráðstöfuninni og hversu lengi fóstri sé ætlað að vara. Fari hagsmunir stúlkunnar og kæranda ekki saman verði hagsmunir kæranda að víkja, sbr. 1. mgr. 4. gr. bvl. Það sé mat Barnaverndarnefndar B að umgengni stúlkunnar við kæranda hafi verið hæfilega ákveðin með hinum kærða úrskurði.

Rétt sé að greina frá því að stúlkan hafi verið í umsjá kæranda frá 27. janúar 2021 þegar kærandi hafi sótt stúlkuna á leikskóla hennar í J, án þess að ræða áður þá fyrirætlun við fósturforeldra, starfsmenn Barnaverndar B eða leikskóla stúlkunnar. Aðdraganda þeirrar atburðarásar megi rekja til þess að borgarlögmaður hafi lagt fram stefnu fyrir Héraðsdómi B þann 4. desember 2020 í samræmi við úrskurð Barnaverndarnefndar B sem hafi verið kveðinn upp 13. október 2020. Borgarlögmanni hafi þá ekki verið kunnugt um að kærandi hefði tveimur dögum áður skráð lögheimili sitt og stúlkunnar á heimili móðurafa hennar að L. Í stefnunni hafi af þessum sökum verið tilgreint rangt lögheimili kæranda. Við þingfestingu málsins í Héraðsdómi B þann 11. desember 2020 hafi lögmaður kæranda gert frávísunarkröfu vegna þess að málinu hefði verið stefnt inn í rangt varnarþing. Málið hafi verið fellt niður í H. Málið hafi síðan verið þingfest í Héraðsdómi Í þann 17. desember 2020. Við fyrirhugaða aðalmeðferð þann 22. janúar 2021 hafi dómari í Héraðsdómi Í komist af sjálfsdáðum að þeirri niðurstöðu að málinu hefði ekki verið lokið með réttum hætti í Héraðsdómi B. Málinu hefði verið lokað með ákvörðun í stað úrskurðar og ekki með þeim hætti sem 105. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála áskilji. Með vísan til 4. mgr. 91. gr. laga um meðferð einkamála hafi málinu því verið vísað frá dómi. Dómsmálið hafi verið tekið fyrir að nýju í Héraðsdómi B 27. janúar 2021 þar sem því hafi verið lokið með úrskurði. Þegar málið hafi verið fellt niður í Héraðsdómi B hafi sú vistun, sem úrskurðað hafi verið um af Barnaverndarnefnd B þann 13. október 2020, verið fallin úr gildi. Þegar lögmaður kæranda hafi verið beðin um að undirrita nýja réttarstefnu, útgefna af Héraðsdómi Í, hafi lögmaðurinn borið fyrir sig um skort á umboði og neitað að undirrita réttarstefnuna. Stefnan hafi því verið birt kæranda 28. janúar 2021.

Eftir að kærandi hafi sótt stúlkuna á leikskólann þann 27. janúar 2021 hafi ríkt óvissa um það í nokkrar klukkustundir hvar kærandi og stúlkan hafi verið niðurkomnar þar sem ekki hafi náðst í kæranda. Kærandi dvaldi að L til 8. eða 9. febrúar 2021. Barnaverndarnefnd á […] Í staðfesti þann 3. febrúar 2021 ákvörðun, sem hafi verið tekin á teymisfundi Barnaverndar á norðanverðum Í þann 11. desember 2020, þess efnis að Barnaverndarnefnd B ynni áfram mál stúlkunnar. Mál stúlkunnar hafi verið tekið fyrir á fundi Barnaverndar B þann 9. febrúar 2021. Barnaverndarnefnd B hafi úrskurðað um tveggja mánaða vistun stúlkunnar utan heimilis. Þegar framfylgja átti úrskurði barnaverndarnefndar hafi verið ljóst að kærandi væri ekki með stúlkuna á lögheimili sínu. Upplýsingar hafi fengist 10. febrúar 2021 um að kærandi og stúlkan væru staddar í F. Ekki hafi enn náðst að framfylgja úrskurðinum þegar greinargerð Barnaverndarnefndar B hafi verið rituð. Kærandi svari ekki í síma og lögmaður kæranda neiti að hlutast til um samvinnu í málinu.

Í viðbótargreinargerð B, dags. 25. mars 2021, kemur fram að Barnavernd B hafi fjallað að nýju um málið á fundi nefndarinnar 10. febrúar 2021 þar sem kveðinn hafi verið upp úrskurður um vistun stúlkunnar utan heimilis til tveggja mánaða. Í úrskurðinum séu málsástæður reifaðar og kröfu lögmanns kæranda varðandi valdþurrð Barnaverndarnefndar B raktar. Héraðsdómur B og Landsréttur hafi tekið undir sjónarmið barnaverndarnefndar, sjá meðfylgjandi úrskurði dómstólanna, dags. 5. og 19. mars 2021.

Óumdeilt sé að þegar úrskurður Barnaverndarnefndar B um umgengni kæranda við stúlkuna hafi verið kveðinn upp 22. desember 2020 hafi mál stúlkunnar verið unnið hjá nefndinni. Þá sé því við að bæta að í kjölfar úrskurðar Héraðsdóms B þann 5. mars 2021 afhenti kærandi stúlkuna úr sinni umsjá. Stúlkan sé nú vistuð utan heimilis á vegum Barnaverndarnefndar B í samræmi við úrskurð nefndarinnar þar um.

IV. Afstaða barns

Í skýrslu talsmanns stúlkunnar, sem barst barnaverndarnefndinni 14. desember 2020, er könnuð afstaða stúlkunnar til umgengni við kæranda og líðan hennar í umgengni við kæranda. Fram kemur skýrslu talsmanns að henni líði næstum alltaf vel en sagðist leið þegar hún saknaði móður sinnar. Hún sagðist vera á skemmtilegum leikskóla þar sem allir væru góðir. Varðandi líðan í umgengni sagðist stúlkan að sér liði vel þegar hún hitti móður sína í umgengni, þætti vænt um hana og saknaði hennar stundum. Þegar rætt var um fyrirkomulag umgengni gat stúlkan ekki vegna ungs aldurs komið með skýra hugmynd af því hvernig hún vildi að umgengni við móður sína væri háttað. Hún var þó alveg skýr með að hún vildi hitta hana oftar.


 

V. Afstaða fósturforeldra

Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að fósturforeldrar telji mikilvægt að stúlkan fái umgengni við móður þegar móðir sé í góðu jafnvægi. Þau telja að umgengni einu sinni í mánuði undir eftirliti hæfilega. Fósturforeldrar segja að reynst hafi vel að umgengni fari fram undir eftirliti.

VI.  Niðurstaða

Stúlkan D er á X aldursári og lýtur forsjá kæranda. Með hinum kærða úrskurði frá 22. desember 2020 var ákveðið að kærandi hefði umgengni við stúlkuna einu sinni í mánuði í tvær klukkustundir í senn. Umgengni færi fram undir eftirliti og í húsnæði á vegum Barnaverndar B eða í húsnæði sem aðilar kæmu sér saman um. Stúlkan hefur verið vistuð í tímabundnu fóstri frá því í desember 2019 en frá 10. febrúar 2021 hefur stúlkan verið vistuð utan heimils á grundvelli b-liðar 1. mgr. 27. gr. bvl. Mál þetta lýtur að úrskurði Barnaverndarnefndar B frá 22. desember 2020 um umgengni kæranda við stúlkuna í tímabundnu fóstri.

Lögmaður kæranda hefur óskað þess koma fyrir úrskurðarnefndina vegna umfangs málsins og gera nánari grein fyrir málinu. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal málsmeðferð fyrir úrskurðarnefndinni að jafnaði vera skrifleg. Nefndin getur þó ákveðið að kalla málsaðila eða fulltrúa þeirra á sinn fund en telja verður að það eigi einkum við þegar mál hefur ekki verið upplýst nægilega með þeim skriflegum gögnum sem fyrir liggja. Í því tilviki sem hér um ræðir er það mat úrskurðarnefndarinnar að þau gögn sem liggi fyrir upplýsi málið með fullnægjandi hætti.

Kærandi krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði ómerktur en til vara að hann verði felldur úr gildi.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að stefnt sé að því að stúlkan verði vistuð í varanlegu fóstri til 18 ára aldurs. Þó sé ekki tímabært að ákveða með umgengni til frambúðar fyrr en niðurstaða dómstóla liggur fyrir. Sú umgengni sem sé til umfjöllunar varði tímabilið á meðan forsjársviptingarmál gegn móður sé rekið fyrir dómstólum. Með hliðsjón af framangreindu ber að horfa til þess að tryggja þarf að friður, ró, stöðugleiki og öryggi ríki í lífi barnsins í fóstri hjá fósturforeldrum þar sem markmiðið sé að tryggja því uppeldi og umönnun innan fjölskyldu þess svo sem best hentar þörfum þess.

Kærandi krefst þess að hinn kærði úrskurður verði ómerktur þar sem hann hafi verið kveðinn upp í valdþurrð. Í 2. mgr. 15. gr. bvl. kemur fram að ef barn flyst úr umdæmi barnaverndarnefndar á meðan hún hefur mál til meðferðar, skal nefndin tafarlaust tilkynna flutninginn til barnaverndarnefndar í því umdæmi sem barnið flytur í og upplýsa viðtakandi barnaverndarnefnd um öll afskipti af málefnum barnsins og láta þeirri nefnd í té öll nauðsynleg gögn málsins. Í 3. mgr. 15. gr. er kveðið á um að ef hentugra þykir að mál sé að einhverju eða öllu leyti rekið í öðru umdæmi en þar sem barn á fasta búsetu, geta viðkomandi barnaverndarnefndir samið um það sín á milli. Ef ágreiningur rís á milli barnaverndarnefnda getur Barnaverndarstofa ákveðið hvar barn telst eiga fasta búsetu, svo og mælt svo fyrir að önnur nefnd en sú þar sem barn á fasta búsetu fari með mál, ef það er talið tryggja betur meðferð þess. Samkvæmt 7. mgr. 15. gr. bvl. geta barnaverndarnefndir, sem í hlut eiga, skotið ákvörðunum Barnaverndarstofu samkvæmt 3. mgr. 15. gr. til úrskurðarnefndar velferðarmála. Með bréfi 4. desember 2020 til Barnaverndarnefndar á norðanverðum Í, óskaði Barnavernd B eftir að mál stúlkunnar yrði áfram til meðferðar hjá Barnavernd B með vísan til 15. gr. bvl. Með bréfi Barnaverndarnefndar á norðanverðum Í, dags. 14. desember 2020, var upplýst að fallist hefði verið á beiðnina og vísað til bókunar teymis Barnaverndar á norðanverðum Í frá 10. desember 2020 þar sem beiðni Barnaverndar B var samþykkt. Með vísan til framangreinds verður ekki fallist á að Barnaverndarnefnd B hafi ekki haft vald til þess að taka hina kærðu ákvörðun. Verður því ekki fallist á ómerkingu hins kærða úrskurðar sökum valdþurrðar.

Kærandi telur að málsmeðferðarreglur hafi verið brotnar við meðferð málsins. Vísar kærandi til þess að barnaverndarnefnd hafi gerst brotleg við rannsóknarreglu og andmælareglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá telur kærandi að meðalhófsreglu stjórnsýslulaga hafi ekki verið gætt.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Sama regla kemur fram í 1. mgr. 41. gr. bvl., en þar segir að barnaverndarnefnd skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Það fer eftir eðli máls og gildandi réttarheimildum hverju sinni hverra upplýsinga barnaverndarnefnd beri að afla um viðkomandi mál til þess að rannsókn teljist fullnægjandi. Í málinu liggur fyrir að talsmaður aflaði sjónarmiða stúlkunnar áður en hinn kærði úrskurður var kveðinn upp. Þá liggur fyrir greinargerð starfsmanna barnaverndar, afstaða móður, afstaða fósturforeldra og upplýsingar frá leikskóla stúlkunnar. Úrskurðarnefndin telur samkvæmt þessu að barnaverndarnefnd hafi aflað þeirra upplýsinga og gagna sem máli skiptu við meðferð málsins og verður að telja að rannsókn málsins hafi að því leyti verið fullnægjandi, sbr. 1. mgr. 41. gr. bvl. og 10. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga um andmælarétt skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Þá er andmælareglu að finna í 1. mgr. 47. gr. bvl. þar sem fram kemur að aðilar barnaverndarmáls skulu eiga þess kost að tjá sig munnlega eða skriflega, þar með talið með aðstoð lögmanns, um efni máls og annað sem lýtur að málsmeðferðinni áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð. Í 45. gr. bvl. kemur fram að barnaverndarnefnd skuli með nægilegum fyrirvara láta aðilum máls í té öll gögn sem málið varða og koma til álita við úrlausn þess. Samkvæmt gögnum málsins mætti kærandi ásamt lögmanni sínum á fund Barnaverndarnefndar B 15. desember 2020. Fyrir fundinum lá fyrir greinargerð starfsmanna, dags. 7. desember 2020, þar sem lagt var til að umgengni yrði einu sinni í mánuði í tvær klukkustundir í senn. Fyrir fundinum lá einnig fyrir greinargerð lögmanns kæranda, dags. 14. desember 2020. Úrskurðarnefndin telur samkvæmt þessu að barnaverndarnefndin hafi gætt andmælaréttar kæranda við meðferð málsins.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns, sem ráðstafað er í fóstur, við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber að líta til þeirrar stöðu sem stúlkan er í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni hennar við kæranda á þann hátt að hún þjóni hagsmunum hennar best.

Að mati úrskurðarnefndarinnar ber því fyrst og fremst að líta til hvaða hagsmuni stúlkan hefur af umgengni við kæranda. Samkvæmt gögnum málsins er nú rekið forsjársviptingarmál fyrir dómstólum og því er stefnt að því að stúlkan verði í varanlegu fóstri til 18 ára aldurs. Hinn kærði úrskurði varðar það tímabil sem stúlkan er í tímabundnu fóstri og verður umgengni kæranda endurskoðuð verði hún svipt forsjá stúlkunnar. Fram kemur í skýrslu talmanns stúlkunnar að hún geti ekki sökum ungs aldurs komið með skýra hugmynd um umgengni við móður sína, en að hún vilji hitta hana oftar. Úrskurðarnefndin telur með hliðsjón af aldri stúlkunnar að hún sé ekki fyllilega í stakk búin til að meta hvernig umgengni þjóni best hagsmunum hennar miðað við núverandi aðstæður. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefndin að fallast verði á sjónarmið Barnaverndarnefndar B og horfa verði til þess að friður, ró, stöðugleiki og öryggi ríki í lífi stúlkunnar. Er þá litið til þeirrar stöðu sem stúlkan er í samkvæmt því sem fram kemur í gögnum máls og lýst er hér að framan.

Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að umgengni við kæranda við stúlkuna hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja beri til grundvallar samkvæmt 2. og 3. mgr. 74. gr. bvl. Í því felst að úrskurðarnefndin telur ekki rök fyrir því að meðalhófsreglan hafi verið brotin. Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber því að staðfesta hinn kærða úrskurð Barnaverndarnefndar B.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 22. desember 2020 varðandi umgengni D, við A, er staðfestur.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum